„Áríðandi tilkynning“ birt á YouTube-rás GameTíví

Stelpurnar í The Babe Patrol bjóða íslensku þjóðinni að spila …
Stelpurnar í The Babe Patrol bjóða íslensku þjóðinni að spila með sér Warzone 2.0 í kvöld. Grafík/GameTíví

Fyrr í dag barst „áríðandi tilkynning“ til íslensku þjóðarinnar frá GameTíví með myndbandi á YouTube.

Erindið snýr að útsendingu kvöldsins en það eru stelpurnar í Babe Patrol sem eiga að fara í loftið klukkan 21.00 í kvöld. Kveikt verður á tölvuleiknum Warzone eins og svo oft áður en að þessu sinni er allri þjóðinni boðið að spila með.

Báðu oft um þetta

„Fólk hefur mjög oft beðið okkur um að halda svona en þessi eiginleiki í leiknum hefur ekki verið í boði í einhvern tíma,“ segir Alma Guðrún „Almazing“, í Babe Patrol, í samtali við mbl.is.

Þegar þær sáu að eiginleikinn var aftur aðgengilegur í leiknum ákváðu þær að „henda sér í þetta“, eins og strákarnir í GameTíví hafa gert áður fyrr. 

„Strákarnir í GameTíví hafa gert þetta og það var mjög vinsælt og við vorum með þá,“ segir Alma en bætir við að það sé líka „bara ótrúlega skemmtilegt að fá loksins að spila með áhorfendum“.



Hætta snemma í vinnunni og mæta á slaginu

„Kæru Íslendingar, áríðandi tilkynning. The Babe Patrol ætla að bjóða íslensku þjóðinni að spila Warzone með sér í kvöld,“ segir í tilkynningu GameTíví í sambandi við kvöldið.

„Eyðið út öllum plönum, hættið snemma í vinnu, hafið leikinn kláran og mætið á slaginu 21.00. Hlökkum til að sjá sem flesta, áfram Ísland.“

Þá verður settur upp einkaleikur (e. private match) í Warzone 2.0 en til þess að það gangi upp verða að lágmarki 50 manns að slást í för með þeim.

Gefa áhorfendum sérstakan kóða

Sérstakur leikjakóði verður gefinn upp í útsendingunni ásamt nánari upplýsingum um hvernig hægt er að taka þátt í fjörinu.

Útsendingin hefst klukkan 21.00 og verður hægt að fylgjast með og taka þátt í gegnum Twitch-rás GameTíví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert