Fyrr í mánuðinum lögðu nokkrir Íslendingar leið sína til Katowice í Póllandi til þess að fylgjast með fyrsta stórmóti ársins í Counter-Strike: Global Offensive, IEM Katowice.
Þá mátti fylgjast með nokkrum af allra bestu CS:GO-liðum heims um þessar mundir etja kappi í von um að hampa bikarnum.
Stofnandi Esports Coaching Academy, ECA, og fyrrverandi formaður Rafíþróttasamtaka Íslands, Ólafur Hrafn Steinarsson, var í hópi þeirra Íslendinga sem urðu vitni að því þegar leikmenn rafíþróttaliðsins G2 lyftu bikarnum.
Ólafur segir að fyrir utan stórmótið sjálft, sem litaðist af miklum hasar og meiriháttar stemningu, hafi margt annað áhugavert verið um að vera sem vakti mikla lukku og hélt hópnum uppteknum.
„Ferðin var algjörlega frábær í alla staði. Katowice var frábær, þó að þetta sé „lítil“ borg með lítið að gerast, þá var alveg nóg um að vera ofan á stanslausan hasar í höllinni allan daginn,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
„Viðburðurinn sjálfur var klikkaður, risastórt expo þar sem Starcraft, Kvennaflokkur CS:GO og hermikappakstur fór fram ásamt því að gestir og gangandi gátu prófað nýjustu leiki og tækni tengda tölvuleikjum.“
Óhætt er að segja að mikið líf og fjör hafi verið í borginni á meðan á viðburðinum stóð og kom undanúrslitaleikur G2 og Team Liquid jafnframt skemmtilega á óvart.
Leikurinn leit ekki sérstaklega spennandi út á á blaði en mikill kraftur býr í báðum liðum að mati Ólafs og segir hann að lotur leiksins hafi endað á því að vera „helvíti skemmtilegar“.
Þá stóð Team Liquid uppi í hárinu á G2 um nokkurn tíma og varð leikurinn æsispennandi en aðsend myndbönd úr salnum bera einmitt þess merki. G2 hafði þarna betur af og mætti Kayden og félögum í Heroic í úrslitunum.
Heroic hafði verið á svakalegri siglingu en að sama skapi hafði G2 ekki tapað einu einasta korti í tuttugu leiki. Var því úrslitaleikurinn heldur en ekki spennuþrunginn þar sem þarna mættust stálin stinn.
„Þannig að hérna sáum við tvö Counter-Strike-lið á hátindinum mætast, og umgjörðin til fyrirmyndar,“ segir Ólafur.
Sviðið sjálft og sýningin var einnig algjörlega frábær og leikirnir voru þrususkemmtilegir.
„Svo skemmdi það ekki fyrir að vera í bestu sætum hússins með aðgang að VIP-stofunni með fríum mat og drykk.“
„Í heildina verður ekki annað sagt en að þetta hafi verið geggjuð ferð í góðum hóp.“