Steinar Þór Ólafsson flytur fyrirlestur um persónulega markaðssetningu á netinu fyrir rafíþróttamenn og aðra áhugasama á eftir í rafíþróttahöllinni Arena þegar opið fræðslukvöld RÍSÍ fer fram.
Rafíþróttasamtök Íslands tilkynntu um þennan fyrirlestur á Facebook, en þar kemur fram að Steinar hafi aðstoðað fjölmörg fyrirtæki, jafnt sem einstaklinga, við að fjölga fylgjendum sínum á netinu og eins við að afla sér tekna í kringum samfélagsmiðla.
Steinar er fyrrum markaðsstjóri fyrirtækjanna Skeljungs og Play en starfar nú sem ráðgjafi hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Nú getur hann nýtt þessa reynslu til þess að aðstoða unga og upprennandi rafíþróttamenn við að byggja upp samfélag fylgjenda á netinu.
Viðburðurinn er gjaldfrjáls og fer fram í rafíþróttahöllinni Arena í Kópavogi og hefst klukkan 19:00.