Mikilvægt er fyrir alla sem ætla ná árangri í tölvuleikjum að eiga ágætan búnað, mús og lyklaborð eða fjarstýringu.
Í þessu tilfelli var hefðbundna leiðin til þess að spila tölvuleiki ekki fyrir valinu en YouTube-stjarnan „WarOwl“, sem þekktur er fyrir að spila Counter-Strike, spilaði leikinn með spjaldtölvu og penna.
Spilarar leiksins þekkja það að þurfa læra á skotferil hvers vopns en það er mismunandi eftir vopnum. Spilarinn þarf að draga niður músina til þess að koma til móts við ferilinn og auka líkurnar á því að fella andstæðinginn.
WarOwl sýnir hvernig það getur verið gott að nota pennann til þess að teikna feril vopnanna og á kannski nákvæmari hátt en hægt er að gera með mús.
Hann nær nokkrum fellum en er óvanur því að nota spjaldtölvu og penna og því er möguleiki að bæta sig allverulega taki hann upp á því að nota þessa aðferð meira.
Hann er ekki sá eini sem hefur prófað að nota spjaldtölvu í skotleikjum en spilarinn „Kariyu“ spilaði Valorant á einu hæsta stigi leiksins með spjaldtölvu og penna.
Þetta gæti verið framtíðin en mýsnar eru þó enn við lýði í þessum efnum.