Sló áskrifendametið á einum mánuði

Kai Cenat á metið yfir fjölda áskrifenda á Twitch.
Kai Cenat á metið yfir fjölda áskrifenda á Twitch. Ljósmynd/KaiCenat

Twitch-streymarinn Kai Cenat er einn sá vinsælasti um þessar mundir en síðasta mánuðinn hefur hann haldið úti streymi með það að markmiði að slá áskrifendametið. Metið á streymari að nafni Ludwig en hann er með um 283.000 áskrifendur á Twitch.

Mikill vöxtur undanfarið

Kai Cenat hefur rokið á stjörnuhimininn á síðustu tveimur árum. Árið 2021 voru einungis um 5.000 manns að horfa á streymi hans en núna í febrúar eru meira en 50.000 manns sem horfa á streymi hans að meðaltali.

Það sem gerir streymi hans skemmtileg og áhugaverð er fjölbreytileikinn – allt frá spjalli hans við áhorfendur upp í spjall við fræga tónlistarmenn.

Hann er einnig góður í tölvuleikjum og spilar oft Fortnite, Grand Theft Auto og Call of Duty.

Tók fram úr þeim vinsælustu

Í febrúar var Kai Cenat með 30 daga streymi í gangi þar sem aðalmarkmið hans var að eiga metið yfir fjölda áskrifenda. Gekk það eins og í sögu og er hann nú með yfir 300.000 áskrifendur þegar greinin er skrifuð.

Þess má geta að Ninja, einn frægasti og vinsælasti Fortnite spilari og streymari heims, er með 260.000 fylgjendur sem sýnir hversu miklar vinsældir Kai Cenat eru um þessar mundir. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert