Vondur matur í Katowice í Póllandi vakti sérstaka athygli Ólafs Hrafns, stofnanda ECA og fyrrum formaður RÍSÍ, í síðasta mánuði þegar hann var á stórmótinu í Counter-Strike: Global Offensive.
Í síðasta mánuði sagði Ólafur blaðamanni frá ferðalaginu sem var að mati hans „algjörlega frábært í alla staði“. Kjúklingaréttur nokkur sem bragðað var á í ferðinni vakti sérstaka athygli og er honum sérstaklega eftirminnilegur.
Ólafur mun seint gleyma kjúklingaréttinum Chicken Brian, sem hann fékk á veitingastaðnum Jeff's. Er það vegna þess hve einstaklega bragðvondur rétturinn var að mati Ólafs og toppar aðeins einn réttur Chicken Brian.
Ýmislegt má finna á morgunverðarhlaðborðum hótela en það var einmitt þar sem allra versti rétturinn sem Ólafur bragðaði á í ferðinni var að finna. Umræddur réttur var einskonar kjúklingahlaup með gulrótum og grænum baunum.
„Titilinn tekur kjúklinga, gulróta og grænbauna-hlauprétturinn sem var í boði í morgunmatnum á hótelinu,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
„Þetta var bara í morgunmatnum við hliðina á heilum disk sem var ekkert nema sneiddir tómatar og saxaður laukur.“