Á hverjum degi batna möguleikarnir fyrir einstaklinga með sérþarfir þegar kemur að spilun tölvuleikja. Leikjatölvuframleiðendur hafa gert fjarstýringar sem hægt er að breyta eftir þörfum og leikir bjóða oft upp á stillingar fyrir sem flesta.
Twitch-streymarinn „YvMHawking“ hefur sýnt frá því hvernig hann spilar tölvuleiki en hann er með taugahrörnunarsjúkdóminn ALS. Hann spilar tölvuleiki, klippir myndskeiðin sín og streymir frá spilun tölvuleikja með augunum einum.
Hann á búnað sem fylgir augnhreyfingum hans og gerir honum kleift að gera allt sem hann þarf í tölvunni sinni.
Þegar greinin er skrifuð er YvMHawking með rétt yfir 10.000 fylgjendur á Twitch en hann streymir nokkrum sinnum í viku. Uppáhalds leikur hans er leikurinn Knight Online sem kom út árið 2004.
Þökk sé leikjaframleiðendum hafa möguleikar fyrir einstaklinga með sérþarfir batnað svo um munar og einn leikur stendur þar sérstaklega upp úr en það er leikurinn The Last of Us sem fékk verðlaun fyrir fjölda stillinga fyrir einstaklinga með sérþarfir.
Tölvuleikir eru fyrir alla.