Emelía Ósk Grétarsdóttir, einnig þekkt sem „MSA“ innan tölvuleikja- og rafíþróttaheimsins, greindi nýlega frá því í Settöpp-þætti hvernig samheldni íslenskra kvenna í tölvuleikjum hefði styrkst til muna eftir að kvennadeildin í Valorant var sett á legg.
„Þarna eru loksins komnar stelpur sem eru með svipuð áhugamál og maður sjálfur, og ég þekkti mjög fáar stelpur sem spiluðu áður,“ sagði hún og vísar til þess þegar hún byrjaði að keppa í kvennadeildinni í tölvuleiknum Valorant.
„Það opnaði alveg smá svona, nýjan heim, og það eru alltaf að bætast fleiri við á hverju tímabili.“
Hún er þó enginn nýgræðingur í geiranum en hún hefur sinnt mörgum rafíþróttamótum hér á landi, lýst leikjum og er þar að auki verið liðsmaður KRÖFLU, sem er þrefaldur deildarmeistari kvennaflokksins í Valorant.
Þá hefur TÍK, Tölvuleikjasamfélag íslenskra kvenna, einnig reynst henni sem öðrum konum sem spila tölvuleiki vel.
„Það er hópur af stelpum á Facebook sem spila alls konar leiki. Ég held að það spanni bara allt áhugasviðið sko,“ segir Emelía í stiklunni hér að neðan.
Þáttinn má horfa á í heild sinni hér á rafíþróttavefnum og er hlekkur að honum neðar í fréttinni.