Eitt besta lið heims í fjárhagsvandræðum

Heroic vann sinn fyrsta titil.
Heroic vann sinn fyrsta titil. Ljósmynd/brcho_

Rafíþróttaliðið Heroic sem situr í öðru sæti á lista yfir bestu lið heims glímir nú við þá stóru áskorun að reyna að fjármagna næstu starfsár.

Í gær var haldinn fundur meðal stjórnarformanna liðsins og eigendanna frá Noregi þar sem fram kom að félagið þyrfti 7,5 milljónir dollara eða um einn milljarð íslenskra króna til þess að halda starfseminni gangandi út árið 2025 og 139 milljónir íslenskra króna til þess að reka félagið út sumarið 2023.

Reyna allt

Fyrsta tilraun félagsins til að safna hlutafé er nýyfirstaðin með það að markmiði að safna allt að 2 milljónum dollara en félagið þurfti frá að hverfa og aðlaga markmiðið þar sem ekki seldist nógu mikið í félaginu. Félagið hefur ekki átt sjö dagana sæla eftir að það var sett á markað en síðan í febrúar 2021 hefur verðgildi þess hrunið.

Skjáskot/GamesIndus

Fyrirtækið Omaken Esports eignaðist Heroic í febrúar 2021 og var ein helsta breytingin sú að liðið hætti með keppnislið í leiknum PlayerUnknown Battlegrounds þar sem ekki var talið að það myndi borga sig til lengri tíma litið.

Tap Heroic árið 2021 var yfir 300 milljónir íslenskra króna og er næsti fundur stjórnenda Heroic og Omaken Esports 27. mars þar sem leitað verður að leiðum til þess að halda liðinu gangandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert