Sýndarveruleikagleraugun frá Sony, Playstation VR2, eru nýkomin á markað en virðist sem áhuginn sé ekki jafn mikill og Sony átti von á.
Fyrri útgáfa gleraugnanna, PS VR, var gríðarlega vinsæl og margir sem vildu prófa sýndarveruleikann og voru spár um sölu nýrra gleraugna byggðar á sölutölum fyrri útgáfunnar.
Nú eru um fimm vikur síðan gleraugun komu á markað og gengur hægt að selja þau, en ein helsta ástæðan er verð gleraugnanna sem kosta svipað mikið og leikjatölvan Playstation 5.
Fyrri útgáfa gleraugnanna seldi 915.000 eintök á fjórum mánuðum en fimm vikum eftir útgáfu PS VR2 hafa selst rúmlega 250.000 eintök. Því þarf Sony að mati margra að lækka verðið á gleraugunum til þess að höfða til fleiri spilara og rífa upp sölutölurnar.
Upphaflega markmið Sony var að selja 2 milljónir eintaka á fyrstu vikum gleraugnanna. Önnur ástæða fyrir lélegu gengi gæti verið minni áhugi á sýndarveruleika en þegar fyrri gleraugun komu út var þetta fyrirbæri nýtt og spennandi og fólk kepptist um að fá að prófa.
Margir spennandi leikir eru í boði fyrir Playstation VR2 og má þar nefna bardagaleikinn Creed 3 sem byggður er á samnefndri mynd sem kom út fyrr á árinu.