Orkudrykkjaframleiðandinn Monster hefur stefnt tölvuleikjaframleiðandanum Glowstick Entertainment fyrir ólögmæta notkun á vörumerki þeirra í leik sem heitir Dark Deception: Monsters and Mortals.
Monster sem er dótturfélag Coca-Cola er þekktur fyrir að ganga hart að þeim sem nota vörumerki þeirra í leyfisleysi, sérstaklega í tölvuleikjaheiminum. Heyrst hefur að tölvuleikjaframleiðandinn muni taka Monster alla leið og glíma við þá fyrir dómara.
Monster er með leyfi fyrir fjölda orða og setninga tengda vörumerkinu líkt og „Unleash the Beast“, „Super Fuel“ og „Reign“. Þá hefur Monster hótað lögsókn þeim sem hafa notað orðin Mons, Monstik, Monxter meðal annars.
Forstjóri Glowstick Entertainment tjáði sig á Twitter-síðu sinni þar sem hann fer yfir málið gegn Monster og segist ekki ætla leyfa Monster að valta yfir sig heldur ætli hann að taka slaginn.
Vincent Livings, forstjóri Glowstick, er afar ósáttur við meðferðina sem hann er að fá frá Monster enda er nafnið á leiknum ekki tengt orkudrykknum á neinn hátt, hann biður fylgjendur sína að versla ekki við orkudrykkjaframleiðandann og segist ætla deila öllum fréttum af málinu á samfélagsmiðlum sínum.