Ný rannsókn sem skoðar fjölda tölvuleikjaspilara segir tæplega helming allra jarðarbúa spila tölvuleiki, hvort sem það eru símaleikir, tölvuleikir á borðtölvu eða leikjatölvu.
Fyrri rannsóknir hafa einblínt á að reyna að finna vinsælustu leiðir fólks til að spila leikina en þessi rannsókn snerist um að reyna að komast að heildarfjölda spilara í heiminum.
Tölvuleikjaheimurinn hefur tekið stakkaskiptum síðan fyrsti tölvuleikurinn var auglýstur á heimsvísu árið 1971, Computer Space. Á þessum rúmlega 50 árum hafa leikjatölvur farið úr því að vera stórar og kraftlitlar í það að hægt er að spila tölvuleiki á snjallsímum sem og kraftmiklum tölvum.
Flestir sem heyra orðið tölvuleikjaspilari draga upp þá mynd af spilaranum að einstaklingurinn sé fastur við sérútbúna borðtölvu hannaða fyrir leiki eða leikjatölvur en svo er ekki.
Hægt er að spila tölvuleiki á snjallsíma, ferðatölvur eins og Nintendo Switch eða Steam Deck, leikjatölvur eins og Playstation og Xbox eða borðtölvur með nógu góðum íhlutum, ætli spilari að spila leikina í hæstu gæðum.
Sérfræðingur hjá fyrirtækinu DFC Intelligence, sem sérhæfir sig í rannsóknum á tölvuleikjamarkaði, segir tölvuleikjaspilara vera um 3,7 milljarða manns. Þessi tala gæti komið á óvart en fyrri rannsóknir hafa sagt fjölda spilara vera í kringum 2,3 milljarða.
Flestir spilarar eru frá Norður-Ameríku og Evrópu.