Verið er að leggja drögin að lokahófi íslenskra ökumanna í hermikappakstri til að fagna því að sjötta keppnisári GTS Iceland sé lokið.
Samkvæmt tilkynningu á Facebook fer lokahófið fram laugardagskvöldið 20. maí næstkomandi. Upplýsingar um stað- og tímasetningu liggja þó ekki fyrir sem stendur þar sem beðið er eftir staðfestingu.
Lokahófið, sem er árlegur viðburður samfélagsins, fer fram á vorin þegar keppnisárið er á enda.
Þá koma hermikappakstursmenn saman og gera sér glaðan dag, ræða sportið eða næsta tímabil og fer jafnframt verðlaunaafhending fram sama kvöld.
Það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með verðlaunaafhendingunni þar sem nóg var um að vera undanfarið keppnisár en að lokum tryggði Davíð Rúnar sér Íslandsmeistaratitilinn með framúrskarandi árangri.
Þess má geta að Davíð endaði keppnisárið með 309 gild stig af 366 mögulegum, sem þýðir að hann vann u.þ.b. 85% af þeim stigum sem voru í boði á árinu.
Að sama skapi keyrði Jón Ægir sína 81. keppni í Úrvalsdeildinni og jafnaði um leið Guðfinn Þorvaldsson, mótastjóra sem einnig er þekktur sem Guffi, í fjölda keyrðra kappakstra í Úrvalsdeild. Þeir tveir eru nú reynslumestu ökumenn Úrvalsdeildarinnar.
Kári Steinn hlaut þyngstu refsingu sem hefur verið beitt frá upphafi GTS Iceland en hann hlaut 30 sekúndna refsingu í kjölfar ákæru vegna áreksturs sem átti sér stað innanleikjar. Refsingin var afdrifarík og varð til þess að hann féll niður í 12. sæti.
Keppendur geta óskað eftir því að dómari endurskoði atvik ef þeir telja að eitthvað hafi átt sér stað sem ekki fellur innan ramma reglnanna. Hingað til hefur Kristján Einar séð um dómgæslu mótaraðarinnar en hann er sérfræðingur í Formúlu 1 ásamt því að vera mjög virkur í rafíþróttastarfi hér á landi.
Aron Óskarsson og Viktor Böðvarsson slógust hins vegar í för með Kristjáni undir lok keppnistímabilsins og fjölgaði því í dómnefndinni. Kristján kláraði tímabilið með þeim en skildi dómaraspjöldin eftir þar sem annar dómari mun taka við af honum á næsta keppnistímabili en ekki hefur verið tilkynnt um hver það verður.
Fá atvik fara fyrir dómnefnd, enda eru keppendur hvattir til þess að fara ekki þá leið nema þeim þyki brotið sérlega illa á sér í keppni, sbr. reglu 8.07 í reglugerð GTS Iceland:
„Að kæra atvik er álitinn úrslitakostur. Keppendur eru hvattir til þess að gera það ekki nema að vel ígrunduðu máli og ef þeir telja að illa hafi verið brotið gegn sér,“ segir regla 8.07 í reglugerð GTS Iceland.
Ótalmargt fleira átti sér stað innan senunnar undanfarið ár og hafa ökumenn margt um að ræða á lokahófinu og eru áhugasamir velkomnir að taka þátt í gleðinni.
„Þeir sem hafa áhuga á að fræðast um mótaröðina og hitta meðlimi hópsins geta komið og skálað með okkur á lokahófinu,“ segir Guðfinnur Þorvaldsson, Guffi mótastjóri, í samtali við mbl.is en með því að fylgja þessum hlekk má einnig finna umræðuhóp samfélagsins á Facebook.
Nánari upplýsingar um lokahófið, svo sem um stað- og nákvæma tímasetningu, verða veittar þegar nær dregur.