Stærsta kaupsamningi í sögu tölvuleikjageirans hafnað

Brad Smith, varaformaður og forstjóri Microsoft.
Brad Smith, varaformaður og forstjóri Microsoft. Ljósmynd/AFP/DREW ANGERER

Samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands, CMA, stendur í vegi fyrir einum stærsta kaupsamningi allra tíma í sögu tölvuleikjageirans, níu þúsund milljarða króna samningi.

Ýmis vandræði hafa komið upp í sambandi við kaup Microsoft á tölvuleikjafyrirtækinu Activision Blizzard. Til dæmis hefur Sony reynt að koma í veg fyrir kaupin og nú setur samkeppnis- og markaðseftirlit Bretlands, CMA, sig einnig upp á móti málinu.

Tölvuleikjaský vaxa í vinsældum

Samkvæmt BBC hefur eftirlitsmaður áhyggjur af því að samningurinn myndi draga úr nýsköpun og valmöguleikum fyrir leikmenn í þessum ört vaxandi skýjaspilunariðnaði tölvuleikjageirans.

Færu kaupin í gegn myndi það þýða að tölvuleikir á borð við Call of Duty, World of Warcraft, Overwatch, Diablo, Candy Crush og fleiri yrðu í eigu Microsoft.

Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í …
Blizzard Entertainment, Inc. er dótturfélag Activision og er staðsett í Kaliforníu, Bandaríkjunum. Grafík/Blizzard Entertainment, Inc.

Gagnrýna ákvörðun eftirlitsins

Bæði Microsoft og Activision hafa gagnrýnt ákvörðunina og ætla að áfrýja ákvörðun eftirlitsins.

„Skýrsla CMA stangast á við metnað Bretland um að gerast eftirsóknarvert land fyrir frumkvöðla á meðal tæknifyrirtækja,“ segir talsmaður Activision við BBC og bætir við að þeir muni vinna hörðum höndum með Microsoft við að snúa þessu við.

„Niðurstöður skýrslunnar lýsa vanþóknun í garð breskra ríkisborgara, sem standa frammi fyrir vaxandi og skelfilegum efnahagshorfum. Við viljum endurmeta vaxtaráform okkar fyrir Bretland.“

„Alþjóðlegir frumkvöðlar, stórir sem smáir, takið eftir því að þrátt fyrir alla orðræðu þeirra, þá er Bretland bersýnilega ekki opið fyrir viðskiptum.“

Varaformaður og forstjóri Microsoft, Brad Smith, segir fyrirtækið standa fast á skuldbindingu sinni við kaupin.

Brad Smith varaformaður og forstjóri Microsoft.
Brad Smith varaformaður og forstjóri Microsoft. Ljósmynd/AFP/DREW ANGERER

Segir þá hvorki skilja markaðinn né tæknina

„Ákvörðun CMA hafnar raunsærri leið til að takast á við samkeppnisvandamál og dregur úr tækninýjungum og fjárfestingum í Bretlandi,“ segir Brad Smith.

Nú þegar hefur Microsoft skrifað undir samninga til þess að tölvuleikir Blizzard verði aðgengilegir til spilunar á fleiri 150 milljón tækjum til viðbótar.

„Eftir langa umhugsun erum við sérstaklega vonsvikin yfir því hvernig ákvörðunin virðist endurspegla neikvætt viðhorf þeirra til markaðarins og hvernig viðkomandi skýjatækni virkar í raun og veru,“ segir Microsoft.

Fyrsti úrskurðurinn mikilvægur

Til þess að ganga frá kaupunum þarf samningurinn að fá samþykki frá eftirlitsstofnunum í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. CMA var fyrst af þeim þremur til þess að fella úrskurð sinn, sem þýðir að ákvörðun þeirra gæti valdið tortryggni meðal annarra ákvörðunaraðila. 

Breska stofnunin kvaðst ekki hafa áhyggjur af því að samningurinn myndi raska samkeppni innan leikjatölvumarkaðarins.

Er nú þegar með forskot á aðra

Martin Colemen, formaður óháðrar nefndar sem rannsakaði tillöguna um eftirlitsaðila, sagði hins vegar að mikilvægt væri að vernda samkeppni á „upprennandi og spennandi markaði“ skýjaspilunar.

„Microsoft er nú þegar í valdastöðu og með forskot á aðra keppinauta skýjatölvuleikja, og þessi samningur myndi styrkja þá yfirburði með því að gefa þeim getuna til þess að grafa undan nýjum og nýstárlegum keppinautum,“ segir Martin Colemen.

Best að leyfa þeim að vinna vinnuna sína

Að sama skapi segir hann Microsoft hafa lagt fram áætlanir til að bregðast við áhyggjum CMA, en að þær væru ekki árangursríkar og hefðu í raun komið í stað samkeppni sem ómarkvissar reglur.

„Skýjaspilun þarf frjálsan samkeppnismarkað til þess að knýja fram nýsköpun og val. Því er best áorkað með því að leyfa núverandi samkeppni í leikjaskýjaiðnaðinum að halda áfram óáreittri.“

Fyrir utan mikla fjárhagslega fjárfestingu er samningurinn mjög mikilvægur fyrir Microsoft þar sem fyrirtækið hefur sett sér það markmið að styrkja framtíðarstöðu sína innan tölvuleikjageirans.

Eins konar Netflix fyrir tölvuleiki

Fyrir úrskurðinn sagði ritstjóri tölvuleikjadeildarinnar hjá Guardian, Keza MacDonald, að fjárhagslegu fyrirkomulagi leikjatölva væri hagað þannig að neytendur kaupi sér fyrst leikjatölvu og síðan leiki til þess að spila á henni.

Það sem væri aftur á móti að gerast núna væri það að skýjaver, ásamt annarri tækni, sköpuðu tækifæri til að búa til eins konar „Netflix tölvuleikja“. Þar með geta spilarar streymt leikjum, frekar en að kaupa þá og eiga.

„Þetta er verkefni sem Microsoft hefur nú þegar fjárfest mikið í. Þeir eru með Gamepass-áskriftarleiðina sína, þar sem þú borgar áskriftargjald og færð um leið aðgang að fjölmörgum tölvuleikjum. Að lokum vonar Microsoft að hægt verði að spila alla þessa leiki í síma, leikjatölvu eða snjallsjónvarpi,“ segir MacDonald.

„Microsoft er að spila út spilum sem tengjast framtíð tölvuleikja, ekki núverandi leikjatölvumarkaði. Það er mjög mikilvægur hluti af þessum samning.“

PC Game Pass er nú aðgengilegt á Íslandi.
PC Game Pass er nú aðgengilegt á Íslandi. Grafík/Xbox

Erfið samkeppni um gæðaleiki

Þrátt fyrir að tæknirisinn sé leiðandi í sambandi við vélbúnað hefur Microsoft átt í erfiðleikum með að halda í við keppinauta á borð við Sony og Nintendo þegar kemur að tölvuleikjunum sjálfum, samkvæmt MacDonald.

„Sony hefur alltaf verið skrefi á undan öðrum með gæðaleiki og Microsoft hefur í rauninni aldrei verið með samkeppnishæfa leiki á því stigi. Þetta er leið til þess að kaupa og stjórna framtíð mjög margra, og mjög vinsælla, tölvuleikja.“

Úrræðin sem Microsoft hefur boðið hingað til, til að reyna sannfæra CMA um að samningurinn muni ekki hafa neikvæð áhrif á framtíð skýjaleikja, hafa greinilega ekki virkað, ólíkt rökum þeirra um leikjatölvur, sem CMA féllst á.

Áfall í iðnaðinum

Breski tölvuleikjaiðnaðurinn varð, samkvæmt BBC, fyrir áfalli vegna ákvörðun CMA og þá vegna þess að flestir áttu von á því að samningurinn gengi í gegn.

Yfirmenn hjá Sony verða aftur á móti meir en sáttir þar sem þeir hafa reynt að koma í veg fyrir yfirtöku Microsoft á Blizzard. Sony hefur áhyggjur af takmörkuðum aðgangi PlayStation-notenda sinna að vinsælustu tölvuleikjunum, sem væri ansi slæmt fyrir tölvuleikjaspilara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert