Á dögunum fór danska rafíþróttaliðið Tricked á hausinn, en liðið var stofnað árið 2011 og höfðu margar stórstjörnur spilað með liðinu. Nú kom hins vegar önnur tilkynning um gjaldþrot en rafíþróttaliðið Copenhagen Flames spilar ekki meira.
Liðið hóf göngu sína í Counter-Strike árið 2016 og hefur spilað stórt hlutverk í því að þjálfa upp góða danska rafíþróttamenn sem hafa hjálpað Danmörku að komast á kortið í Counter-Strike.
Fyrir um tveimur vikum síðan óskaði Copenhagen Flames eftir fjárstuðningi en liðið þurfti að fá fjárfestingu fyrir tæpar 100 milljónir króna til þess að geta haldið rekstrinum áfram út árið 2023.
Svo virðist sem þessi fjárstuðningur hafi ekki fengist og fyrirtækið varð því gjaldþrota.
Í skilaboðum til aðdáenda liðsins tjáir Steffen Thomsen, forstjóri Copenhagen Flames, sig um ástandið í heiminum núna og ástæðuna bak við þetta allt saman.
„Við reyndum eins og við gátum að snúa rekstrinum við. Við reyndum að finna aðila sem vildu fjárfesta í liðinu. Í gegnum þetta ferli höfum við séð mikinn áhuga á liðinu en rafíþróttaumhverfið núna er á brothættum stað og það er ekki gott fyrir fjárfesta. Við þurftum peninginn strax og þetta gekk því ekki upp.“
Rafíþróttaliðinu gekk vel árið 2022, það var í fyrsta sinn sem fyrirtækið þurfti ekki að hafa áhyggjur af fjármálum liðsins enda höfðu liðsmenn Counter-Strike liðsins keppt á tveimur stórmótum. Liðinu hefur líka gengið vel á minni mótum og farið langt á nokkrum þeirra.