Leikjaframleiðandinn Ubisoft hefur gengið í gegnum ýmislegt á síðastliðnu ári og virðist lukkan ekki vera snúast honum í vil. Í framleiðslu hjá fyrirtækinu er tölvuleikurinn Assasin's Creed: Mirage og virðist sem aðdáendur fyrri leikja þurfi að bíða lengur eftir þessari nýju viðbót.
Fyrir nokkrum dögum kom upp á yfirborðið orðrómur um að framleiðandinn leitaði leiða til þess að hressa upp á leikinn með því að bæta við fleiri leikjahömum (e. gamemode) í þennan klassíska ævintýra- og bardagaleik.
Ubisoft tilkynnti í september í fyrra að það tæki spilara um 15-20 klukkustundir að klára söguþráð leiksins en ekki hundruð klukkutíma eins og í síðustu leikjum. Sú lengd er kunnugleg þeim sem hafa spilað leikina frá upphafi en fyrstu Assasin's Creed leikirnir voru svipaðir á lengd.
Samkvæmt heimildum Twitter-síðunnar Codex, sem er ein stærsta aðdáendasíða leiksins, kom í ljós að breytingar voru gerðar á framleiðslu leiksins og því muni hann ekki koma út fyrr en seinna á árinu.
Ekki er víst á hvorum leiknum sá nýi verður byggður, Assasin's Creed Infinity eða Red. Aðdáendur voru margir miður sín yfir þessum fregnum og voru áhyggjufullir yfir því að stjórnendur fyrirtækisins væru að seinka útgáfu leiksins fyrir eigin hagsmuni.
Talsmaður leikjaframleiðenda hjá Ubisoft sagði í viðtali á dögunum að ekki væri slæmt ef ákveðið yrði að seinka útgáfu leiksins, ef líf framleiðendanna breytist ekki við það og hægt væri að njóta lífsins samhliða vinnunni.
Assasin's Creed: Mirage kemur út á árinu 2023.