Elsta rafíþróttalið Frakklands, LDLC, hefur hætt allri starfsemi eftir 13 ár í rafíþróttasenunni. Liðið var stofnað árið 2010 og náði mestum árangri með Counter-Strike liði sínu á árunum 2014 til 2018.
Á þessum tíma varð liðið eitt sigursælasta lið heims með sigri á stórmótinu DreamHack Winter árið 2014 og er liðið eitt þeirra 13 liða sem hafa unnið stórmót í sögu leiksins.
Aðeins þremur mánuðum eftir stórmótið seldi LDLC nafnréttinn á liðinu til EnVyUs sem tókst að vinna stórmót ári seinna, 2015, og urðu liðsmenn liðsins þá sigursælustu rafíþróttamenn Frakklands frá upphafi.
Margir af bestu Counter-Strike leikmönnum heims hafa spilað undir merkjum LDLC en þar má nefna leikmenn á borð við apEX, Ex6TenZ, KennyS, shox og NBK.
Auk þess að eiga gott keppnislið í Counter-Strike hefur LDLC tvisvar orðið heimsmeistarar í fótboltaleiknum FIFA og stórmeistarar í League of Legends. Árið 2020 náðust samningar milli LDLC og franska fótboltaliðsins Olympique Lyonnais. Lyon hafði þá verið með sitt eigið lið síðan árið 2017 og voru eitt fremsta FIFA lið heims.
Í samstarfi við LDLC voru áform um að halda risavaxið rafíþróttamót á heimavelli Lyon en þau plön gengu ekki upp og samstarfinu var hætt þremur mánuðum seinna.