Rafíþróttaliðið Heroic, sem er eitt besta rafíþróttalið heims í Counter-Strike, hefur gengið í gegnum erfiða tíma fjárhagslega undanfarið og leitaði eftir fjárfestingum til þess að tryggja starfsemi félagsins um ókomna tíð. Það tókst ekki en hins vegar tókst að safna nægu fjármagni til þess að halda liðinu gangandi út sumarið.
Í gær samþykkti meirihluti stjórnar fyrirtækisins Omaken, sem er eigandi rafíþróttaliðsins, að selja rafíþróttaliðið til Krow Bidco AS og er kaupverðið rúmlega 5 milljónir bandaríkjadollara eða um 696 milljónir íslenskra króna.
Liðsmenn Heroic eru nú staddir í París að keppa á stórmóti í Counter-Strike en þeir eru ábyggilega sáttir við að framtíð liðsins sé tryggð, að minnsta kosti eins og staðan er núna.