Tæknirisinn Microsoft gerir nú allt sem þeir geta til þess að kaupa tölvuleikjaframleiðandann Activision Blizzard. Til þess að ganga frá kaupunum þarf fyrirtækið að fá samþykki frá samkeppniseftirlitum heimsins þar sem Sony, framleiðandi Playstation leikjatölvunnar, mótmælir kaupunum.
Kaupin eru sögð ein þau stærstu í sögu tæknigeirans en kaupverðið er himinhátt, 69 milljarðar bandaríkjadollarar eða rúmir 9600 milljarðar króna.
Microsoft hefur reynt að fá leyfi frá Bandaríkjunum og Bretlandi til þess að ganga frá kaupunum en salan stöðvuð í bæði skiptin. Núna hefur Evrópusambandið hinsvegar samþykkt kaupin því Microsoft hefur gefið út að leikir framleiddir af Activision Blizzard verði ennþá aðgengilegir öllum tölvuleikjaspilurum, sama hvaða leikjatölva er notuð.
Áhyggjur Sony eru til komnar vegna þess að leikir á borð við Call of Duty, sem eru vinsælustu skotleikir heims, eru gríðarlega vinsælir á tölvum þeirra og nánast ómissandi úr leikjaflórunni. Microsoft gaf út tilkynningu að allir leikir Activision Blizzard yrðu aðgengilegir öðrum leikjatölvunotendum næstu 10 ár og hafa samið við hin ýmsu fyrirtæki.
Evrópusambandið segir kaupin á Activision Blizzard hafa smávægileg áhrif á tölvuleikjamarkaðinn og að Microsoft sé ekki að reyna útrýma samkeppninni.