Íslenska landsliðið í Overwatch, BMC, fékk heldur en ekki góðar fréttir í vikunni þar sem þeim var boðið pláss á heimsmeistaramótinu. Fyrirvarinn var þó af skornum skammti þar en leikmenn Íslands spiluðu fyrstu leikina í undankeppninni fyrr í dag.
„Þetta er auðvitað ótrúlega skemmtilegt, við áttum ekkert von á þessu að komast inn í Overwatch World Cup og þegar það var fyrst talað við okkur héldum við að þetta væri bara grín,“ segir Björgvin Gunnar Björgvinsson „NAK“, liðsstjóri BMC, í samtali við mbl.is.
„En þegar önnur lönd fóru að tala við okkur, svo sem Svíþjóð, þá byrjuðum við að átta okkur á því að þetta væri raunverulega að gerast.“
Þá bætir hann einnig við hve gaman það sé að Ísland sé að skapa sér nafn á heimsvísu fyrir rafíþróttastarfið sem fer fram hér á landinu sem og gleðilegt að sjá færni íslenskra leikmanna.
Mesta ánægjan er reyndar líka fólgin í því að mótastjórn erlendis hafi haft samband sérstaklega til þess að sjá til þess að Íslendingar tækju þátt í mótinu.
„Við áttum ekkert von á því að Blizzard hafi verið að fylgjast með okkur. Það er alveg rosalega stórt fyrir okkur, litla Ísland, að stórt fyrirtæki eins og Blizzard leiti til okkar og bjóði okkur pláss.“
„Ég veit ekki nákvæmlega af hverju við fengum þetta pláss, og svo sem var ekkert sérstaklega að spyrja Blizzard út í það.“
Það lítur allt út fyrir að Ísland hafi tekið pláss Araba þar sem þeim tókst ekki að skipa heilt lið en það var hægt á Íslandi, á innan við sólarhring.
„Við vorum spurðir á sunnudagskvöldi og við urðum að vera með lið tilbúið á mánudaginn. Svo var fyrsti leikurinn okkar í dag, þannig að þetta gerðist allt rosalega hratt,“ segir Björgvin en bendir á hve leitt það hafi verið að geta ekki gefið öllum tækifæri á að keppa undir merkjum Íslands.
Sem fyrr segir voru fyrstu leikir undankeppninnar spilaðir í dag og er Ísland komið áfram í úrslit Evrópu-deildarinnar þrátt fyrir að hafa fengið skamman fyrirvara til þess að æfa fyrir mótið.
Íslendingar komu sterkir inn á mótið með því að vinna fyrsta leik sinn og þá gegn Sviss en Finnar höfðu betur af þegar seinni leikur Íslendinga fór fram.
Leikir dagsins voru sýndir í beinni útsendingu á opinberu Twitch-rás Overwatch en með því að fylgja þessum hlekk má nálgast nánari upplýsingar um mótið.