Síðasta stórmótið í Counter-Strike:Global Offensive er í fullum gangi og hófst úrslitakeppnin í gær. Úrslitakeppnin byrjaði af krafti þar sem Vitality mætti breska liðinu Into the Breach en Vitality fór með góðan 2-0 sigur úr því einvígi.
Í seinni leik dagsins mætti danska liðið Heroic bandaríska liðinu FaZe Clan. Bæði lið voru talin sigurstrangleg fyrir mót og því var mikil spenna fyrir þessari viðureign.
Heroic er eitt besta lið heims og FaZe Clan rétt náði sæti í úrslitakeppninni með sigri gegn sterku Natus Vincere liði. Viðureignin byrjaði á kortinu Nuke og byrjaði FaZe vel en svo komust Danirnir á lagið og tóku níu umferðir í röð og endaði hálfleikurinn 10-5. Seinni hálfleikur var æsispennandi þar sem FaZe Clan náði að klóra sig til baka en að lokum sigraði Heroic fyrsta leik 16-14.
Næsta kort var valið af Heroic og varð Overpass fyrir valinu. Heroic-menn áttu góðan leik og áttu ekki í miklum erfiðleikum með að klára leikinn og sigra einvígið 2-0. FaZe Clan datt því úr leik og liðið leikur þar með ekki á stórmóti aftur fyrr en á næsta ári þegar Counter-Strike senan tekur á móti nýjum leik, Counter-Strike 2.