Danski rafíþróttaþjálfarinn Danny „zonic“ Sørensen vann í gær sinn fimmta stórmeistaratitil sem þjálfari í Counter-Strike og varð því sá allra sigursælasti í sögunni. Áður en hann tók við starfinu sem þjálfari Vitality þjálfaði hann rafíþróttaliðið Astralis, sem var eitt sinn það besta í heimi.
Ásamt því að vinna 5 stórmót hefur hann leitt lið sín til sigurs á fjölda smærri móta. Keppnisárið 2018-2019 vann Astralis 3 stórmót í röð undir stjórn zonic.
Í viðtali við DotEsports var hann spurður hvort hann haldi því fram að hann sé besti þjálfari í heimi en hann segist ekki hugsa út í það. „Ég er það kannski ef þú skoðar tölfræðina en fyrir mitt leyti skiptir það mig litlu máli, ég pæli ekki mikið í því en margir halda því fram að þjálfarar séu bara skipuleggja leikinn en það er margt sem spilar inn í“.
„Það þarf að tala við leikmennina, tengjast þeim, skipuleggja með þeim og taka tillit til einkalífsins. Ég geri alla leikmennina klára fyrir stórmót og að þeir séu að skila sem mestu af sér“.
Zonic segist vera þakklátur leikmönnunum sem hafa gert hann að sigursælum þjálfara. Þegar ágætum ferli zonic sem leikmaður í Counter-Strike lauk árið 2015 tók hann að sér þjálfunarhlutverkið og hefur síðan þá þjálfað nokkra af bestu leikmönnum sögunnar, en þar má nefna leikmenn á borð við dev1ce, dupreeh, Magisk og ZywOo.