Rafíþróttaliðið Vitality vann í gær sigur á liðinu GamerLegion og urðu stórmeistarar í Counter-Strike. GamerLegion komst alla leið í úrslitin í gær þvert á spár áhorfenda en þeim tókst næstum hið ómögulega, sem er fyrir smærri lið að taka niður risaliðin og vinna stórmeistaratitil.
Verðlaunafé mótsins var um 175 milljónir íslenskra króna sem skiptist á milli liða eftir því í hvaða sæti þau enduðu. Vitality sigraði mótið og fékk því stærsta hluta verðlaunafjárins eða um 85 milljónir króna.
Franska liðið Vitality spilaði á heimavelli en mótið var haldið í Frakklandi fyrir framan fulla höll aðdáenda. Vitality byrjaði úrslitaleikinn vel og í hálfleik fyrsta leiksins var staðan 11-4 fyrir Vitality og gríðarleg fagnaðarlæti ómuðu í rafíþróttahöllinni í París. Seinni leikurinn var jafnari en sá fyrri en að lokum vann Vitality leikinn 16-13 og því viðureignina 2-0.
Danskur liðsmaður Vitality segir ekkert jafnast á við tilfinninguna og að liðið vinni titilinn á heimavelli, hann hefur áður unnið titil í Lundúnum sem var sérstakt fyrir hann því sá titill var sá fyrsti en þessi er ekki síðri.
Samkvæmt notendakönnun Mbl.is töldu flestir að FaZe Clan myndi vinna titillinn en tæp 19% notenda giskaði rétt, að Vitality myndi vinna titilinn.