GameTíví býður í lokaveislu í Kópavogi

Arena í Kópavogi.
Arena í Kópavogi. Ljósmynd/Arena

Skemmtikraftarnir í GameTíví ætla að ljúka dagskrártímabilinu með glæstri veislu á föstudaginn í rafíþróttahöllinni Arena í Kópavogi.

Í tilkynningu á Facebook kemur fram að veislan hefjist klukkan 20.00 og verður þá boðið upp á ýmis tilboð á bæði veitingum og drykkjum á veitingastaðnum Bytes, sem er staðsettur innan Arena. 

Etja kappi hvor við annan

Fram koma GameTíví-strákarnir, stelpurnar í Babe Patrol, Gameveran og Sandkassinn og munu streymishóparnir etja kappi hvor við annan í tölvuleikjum fyrir framan áhorfendur. Þá verður streymendum stillt upp á svið Bytes sem gefur áhorfendum auðvelt fyrir að fylgjast með.

Að tölvuleikjakeppni lokinni fer fram spurningakeppni á barnum og segir í tilkynningu að glæsileg verðlaun verði í boði. Kvöldinu lýkur þó ekki þar en gestir eru hvattir til þess að „henda sér í tölvurnar og spila langt fram eftir kvöldi“ í beinu framhaldi af spurningakeppninni.

Frá þessu öllu saman verður sýnt í beinni útsendingu á Twitch-rás GameTíví og Stöð2 Esport og geta þeir sem hafa áhuga því fylgst með þó þeir sjái sér ekki fært um að mæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka