Franski rafíþróttamaðurinn og goðsögnin Kenny „KennyS“ Schrub tilkynnti á dögunum að hann muni leggja músina á hilluna og einbeita sér að öðrum hlutum hjá rafíþróttaliðinu Falcons.
Ferill Kenny nær til baka til ársins 2012 en þá lék hann með liðinu VeryGames og keppti í leiknum Counter-Strike: Source þar til Counter-Strike senan færði sig yfir í nýjan leik, Global Offensive. Kenny var einn besti Counter-Strike spilari heims á árunum 2013-2019 og var fimm sinnum á lista yfir 20 bestu leikmenn ársins.
Kenny vann einn stórmeistaratitil, hann vann DreamHack árið 2015 og var oft nálægt því að vinna fleiri stóra titla.
Undir lok ferilsins fór þó að halla undan fæti og missti hann sæti sitt hjá liðinu G2 árið 2021 eftir að rafíþróttaliðið ákvað að róa á ný mið og færði sig frá því að vera einungis með franska rafíþróttamenn í keppnishóp sínum.
Eftir langa setu á bekknum hjá G2 færði hann sig yfir til liðsins Falcons með fyrrum liðsfélögum sínum með þann draum að öðlast þátttökurétt á nýafstöðnu stórmóti í Counter-Strike sem fór fram í heimalandi þeirra, Frakklandi. Falcons voru hársbreidd frá því að ná markmiðinu en duttu út á síðasta umspilskeppnisdegi.
Eftir það ákvað Kenny að færa sig yfir í myndbandagerð fyrir liðið og leyfa öðrum að spreyta sig.