Sævar Breki Einarsson
Þrátt fyrir slakt gengi undanfarið í tölvuleiknum Counter-Strike geta margir tekið gleði sína á ný, þá sérstaklega aðdáendur rafíþróttamannsins Nicolai „dev1ce“ Reedtz. Nicolai leikur með liðinu Astralis sem hefur mistekist að öðlast þátttökurétt á stærstu mótin undanfarna mánuði en unnu þó mótið CCT South Europe series 4 í gær.
Nicolai fór frá Ninjas in Pyjamas aftur yfir í Astralis í október 2022 eftir að hafa verið lengi frá vegna veikinda. Fyrsti leikur hans var gegn Vitality og síðan þá hafa tölur hans tekið heldur betur við sér og er hann farinn að minna á leikmanninn sem hann var áður en hann fór til Ninjas in Pyjamas.
Nicolai stendur sig sérstaklega vel á kortinu Overpass en síðan hann kom til Astralis hefur sigurhlutfall liðsins farið úr 51,6% upp í 78,6% svo þessar frammistöður eru að koma sér mjög vel.
Astralis vann úrslitaleik CCT í gær gegn liðinu Eternal Fire og endaði Nicolai dev1ce með 49 fellur í þremur leikjum.