Tímabilið í Formúlu 1 er hafið og það þýðir oftast að nýr tölvuleikur sé á leiðinni frá Codemasters og EA Sports. Á dögunum tilkynnti EA að leikurinn kæmi út um miðjan júní sem er fyrr en vanalega. Tölvuleikurinn F1 22 sem kom út árið 2022 var vonbrigði fyrir marga enda var lítið sem breyttist milli ára í leiknum.
Núna hefur Codemasters og EA lofað betri gæðum í leiknum, raunverulegri aksturshegðun andstæðinga og að bílarnir séu betur hannaðir. Í nýrri stiklu frá EA Sports sést hvernig nýtt kerfi í leiknum tæklar árekstra og önnur atvik sem koma iðulega upp í Formúlu 1 en meiri líkur eru á í nýja leiknum að árekstrar hafi áhrif á keppnina.
Einnig koma nýjar brautir inn í leikinn, eins og Las Vegas brautin, og gamlar brautir hafa fengið yfirhalningu í leiknum.
Leikurinn kemur út 16. júní en hægt er að byrja að spila hann þremur dögum fyrr með því að forpanta leikinn.