Hækka verðið á myntinni

Mögulegt er að eignast sjaldgæf fótboltaspjöld í leiknum.
Mögulegt er að eignast sjaldgæf fótboltaspjöld í leiknum. Skjáskot/FIFA

Framleiðandi leiksins FIFA, EA Sports, kynnti verðhækkanir á rafmyntinni „FIFA Points“ sem spilarar geta keypt í leiknum og virðist sem hækkunin hafi tekið gildi sums staðar í heiminum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að verðhækkunin sé í takti við aðrar hækkanir í tölvuheiminum.

Hægt er að nota FIFA Points til þess að kaupa lukkupakka þar sem spilari á möguleika á því að græða háar fjárupphæðir í leiknum ef spilari er svo heppinn að fá sjaldgæft fótboltaspjald, hins vegar eru litlar líkur á að það gerist og oftast situr spilarinn uppi með sárt ennið.

Hækkunin á þó aðeins við í sumum löndum og segir EA Sports að sums staðar muni spilarar sjá verðhækkun og annars staðar verðlækkun.

Samkvæmt síðunni FUTBIN er búið að hækka verð fyrir notendur Playstation í Bretlandi og hafa öll verð þar í landi á FIFA Points hækkað um 10%.

Ekki er sama verð á rafmyntinni alls staðar en til dæmis má nefna Nýja-Sjáland þar sem það kostar 5.500 krónum meira að kaupa 12.000 FIFA Points en í Bretlandi. Því vona margir spilarar þar í landi að verðið muni lækka til þess að vera í takti við önnur lönd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert