Rafíþróttamaðurinn Hampus „hampus“ Poser er tilbúinn að snúa aftur til leiks eftir nokkurra mánaða veikindi. Þessi 24 ára rafíþróttamaður dró sig úr leik í janúar og tók sæti sitt á bekknum hjá Counter-Strike keppnisliði Ninjas in Pyjamas, vegna veikinda.
Umboðsmaður hans staðfesti þessar fregnir í viðtali við Counter-Strike miðilinn HLTV.org og sagði að hann væri „löngu tilbúinn að snúa aftur til leiks“. Umboðsmaðurinn vildi þó ekki tjá sig um hvort hann myndi spila aftur fyrir Ninjas in Pyjamas eða finna sér nýtt lið.
Þegar Hampus fór í veikindaleyfi var Kristian „k0nfig“ Wienecke fenginn til Ninjas in Pyjamas og gaf liðið út yfirlýsingu um að Hampus myndi ekki keppa með liðinu út vortímabilið.
Forstjóri Ninjas in Pyjamas er himinlifandi með fréttirnar af Hampus og segir að „rafíþróttir séu alltaf að breytast og geta tekið mikið á einstaklinga, ég ber virðingu fyrir þeim sem taka sér smá tíma til þess að endurstilla sig í þessu umhverfi“.
Hann segir að það muni taka tíma að vega og meta hvað sé best að gera í þessari stöðu, nú sé liðið með breiðan hóp og það þurfi að hugsa vel og móta framtíðarsýn fyrir liðið og hvernig Ninjas in Pyjamas komi sterkt inn í nýja leikinn, Counter-Strike 2.