Ísland skellti Wales í fyrsta leik

Tania Sofia spilar fyrir íslenska kvennalandsliðið í Counter-Strike.
Tania Sofia spilar fyrir íslenska kvennalandsliðið í Counter-Strike. Samsett mynd

Íslenska kvennalandsliðið í Counter-Strike mætti Wales í fyrsta leiknum í undankeppni heimsmeistaramóts Alþjóða rafíþróttasambandsins og fóru þær með 16-1 sigur af hólmi.

Í samtali við Taniu Sofiu Jónasdóttur segir hún að það sé góður mórall í liðinu og þær passi vel upp á hverja aðra og þessi úrslit hafi komið á óvart, en samt ekki.

„Við reynum bara taka okkar stöður, við pössum upp á hvor aðra og förum allar saman í einvígin ef við getum. Við reynum að halda góðum samskiptum og vorum samheldnar“.

Miklar vinkonur

Aðspurð hvernig stemning væri í liðinu núna segir Tania að það séu mjög góð samskipti og mikil stemning enda séu þær vanar að spila saman og miklar vinkonur.

„Við erum vanar að spila saman, við spilum fyrir rafíþróttalið Fylkis og höfum verið að spila lengi saman, flestar í meira en ár. Við þekkjumst allar vel og hittumst reglulega“.

Hefðbundinn undirbúningur

Undirbúningurinn fyrir landsleikina var eins og hefðbundinn undirbúningur Fylkis, enda er liðið það sama og þjálfarinn, Ágúst Davíðsson, er með þeim hjá Fylki.

„Undirbúningurinn felst í því að spila mikið saman, æfa veikleikana aftur og aftur. Yfirleitt horfum við á leiki hjá hinu liðinu en það var ekki hægt núna þar sem hin liðin eru ekki með neina skráða leiki og því þurftum við bara einbeita okkur að því sem við gerum vel og treysta hvor annarri“.

Næsti leikur er viðureign gegn Spáni og á morgun fer fram leikur gegn Portúgal sem teflir fram sterku liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert