Samtök leikjaframleiðenda og Menntaskólinn á Ásbrú undirrituðu í gær samstarfssamning í því skyni að efla samstarf á milli atvinnulífs og menntastofnana í tölvuleikjagerð.
Helsti tilgangur samningsins er að mynda fyrirsjáanleika í námsframboði fyrir Menntaskólann á Ásbrú sem og tengingu inn í atvinnulífið og bjóða upp á skapandi námsleið sem skilar hæfileikaríkum tölvuleikjahönnuðum.
Boðið verður upp á sértækt nám til tölvuleikjagerðar. Þessi samningur brúar bilið milli atvinnulífsins og menntunar.
Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðanda, segir tölvuleikjaiðnaðinn hér á Íslandi hafa staðið í miklum blóma undanfarin ár og eru yfir 600 sem starfa við tölvuleikjagerð hér á landi.
„Mikil vaxtartækifæri eru fyrir hendi í iðnaðinum en forsendan fyrir því að þau tækifæri verði að veruleika er aukið framboð af hæfu starfsfólki“.
Þorgeir segir einnig að tölvuleikjabraut MÁ komi sterk inn í þetta verkefni og vonar að sem flestir nemendur sem hafa áhuga á leikjaiðnaði kynni sér námið.
„Ég þekki það af eigin reynslu hversu skapandi störf eru í leikjaiðnaði og hversu mörg spennandi tækifæri standa áhugasömum til boða“.
Ingigerður Sæmundsdóttir er forstöðumaður Menntaskólans á Ásbrú og segir hún að námið í tölvuleikjagerð vera nýstárlegt. Það hefur verið í boði innan skólans frá árinu 2018 en auk hefðbundinna námsgreina er lögð sérstök áhersla á sköpun, hugmyndaauðgi, forritun og verkefnastjórn.
Nemendur læra að fylgja eftir þróun tölvuleiks frá hugmynd að veruleika. „Þetta býr nemendur undir störf framtíðarinnar sem breytast á ógnarhraða“.