Microsoft getur ekki klárað kaupin strax

Microsoft reynir að ganga frá kaupunum sem fyrst.
Microsoft reynir að ganga frá kaupunum sem fyrst. Mynd/Wikipedia

Tæknirisinn Microsoft getur ekki klárað kaup á tölvuleikjaframleiðandanum Activision Blizzard strax en samkeppniseftirlit Bandaríkjanna vill að málið fari fyrir dómstóla þar í landi.

Samkeppniseftirlitið reynir að koma í veg fyrir kaupin en Microsoft þarf að ganga frá kaupunum fyrir 18. júlí en eftir það þarf Microsoft að hverfa frá kaupunum og greiða Activision Blizzard skaðabætur. 

Nokkrar lykildagsetningar voru birtar í þessu máli en Microsoft þarf að kynna mál sitt fyrir dómara þann 16. júní og þarf mótsvar að berast frá samkeppniseftirliti Bandaríkjanna fjórum dögum seinna, eða 20. júní. Málið verður svo tekið fyrir dagana 22. og 23. júní og búist er við niðurstöðu í málinu nokkrum dögum síðar. 

Forstjóri Microsoft, Brad Smith, sagðist í viðtali á dögunum ekki hafa miklar áhyggjur af þessu máli. „Við erum mjög glöð að fá tækifæri til þess að kynna okkar mál fyrir dómaranum, við trúum því að niðurstaðan úr þessu máli muni hjálpa okkur að klára kaupin“.

Microsoft berst fyrir því að mega ganga frá kaupunum bæði í Bandaríkjunum og svo í Bretlandi en bæði löndin hafa áhyggjur af öðrum framleiðendum og stöðu þeirra á tölvuleikjamarkaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert