Gæti keypt sér hús fyrir peningana

Límmiðarnir eru notaðir til þess að skreyta vopn í Counter-Strike.
Límmiðarnir eru notaðir til þess að skreyta vopn í Counter-Strike. Skjáskot/Jaxon

Einn heppinn tölvuleikjaspilari varð á dögunum tugmilljónum króna ríkari eftir sölu á verðmætum límmiðum í Counter-Strike.

Spilarinn keypti límmiða sem voru gefnir út af Valve, framleiðanda Counter-Strike, í aðdraganda stórmótsins ESL One Katowice árið 2014. Hægt er að nota límmiðana til þess að skreyta vopn í Counter-Strike.

Límmiðarnir voru lengi vel nánast einskis virði en eftir því sem fleiri notuðu límmiðana urðu þeir fáséðari og safnarar sóttu í að reyna að eignast þá.

Núna, um 9 árum seinna, kostar einn límmiði merktur liðunum sem tóku þátt á mótinu allt frá þremur og upp í 10 milljónir króna.

Fram kom á Twitter-síðu einstaklingsins sem sá um söluna á límmiðunum að spilarinn hefði haft samband við hann og vildi athuga hvað hann fengi fyrir alla límmiðana sem hann hefði gleymt að hann ætti.

Heildarverðmæti límmiðanna sem spilarinn átti var yfir 60 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert