Þeir sem kaupa sérhannaða Starfield útgáfu af Xbox-fjarstýringunni eiga von á skemmtilegum kaupauka. Starfield er leikur sem hannaður er af tölvuleikjafyrirtækinu Bethesda og kemur á markað innan tíðar.
Hann hefur verið lengi í framleiðslu en leikurinn var kynntur á tölvuleikjaráðstefnunni E3 árið 2018. Til þess að fagna leiknum hafa stjórnendur Xbox ákveðið að gefa út sérstaka fjarstýringu sem líkist leiknum.
Leikurinn var sýndur núna á Xbox Showcase sem var eins konar ráðstefna þar sem Xbox sýndi allt sem er í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir.
Auk fjarstýringarinnar koma sérhönnuð Starfield heyrnartól en allir sem kaupa fjarstýringu eða heyrnartólin fá nýjan lifandi bakgrunn í leikjatölvurnar sínar sem kaupauka.
Blaðamaðurinn Tom Warren greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni þar sem hann sýnir nýja bakgrunninn og hverju má búast við, hann segir fjarstýringuna eina þá fallegustu sem Xbox hefur gefið út.
Starfield kemur út þann 6. september eftir nokkurra ára framleiðslu.