Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP heldur hátíð hér í Reykjavík dagana 21. til 23. september og koma þar saman spilarar leiksins EVE Online. Uppselt er á hátíðina sem er nokkurs konar þjóðfundur spilaranna en áratugur er síðan síðast var uppselt á hátíðina.
Leikurinn EVE Online er tuttugu ára gamall og verður afmælinu fagnað hér á Íslandi með þessari hátíð sem fram fer í fimmtánda sinn, en hún fór fyrst fram árið 2004. Á hátíðinni kynnir framleiðandi leiksins, CCP, ýmsar nýjungar í vöruþróun sinni og í EVE-heiminum.
Það koma spilarar frá 56 löndum til landsins í ár ásamt blaðamönnum og ýmsum samstarfsaðilum framleiðandans úr tölvuleikja-, nýsköpunar- og tæknigeiranum.
Dagskrá hátíðarinnar samanstendur meðal annars af fyrirlestrum og pallborðsumræðum um efnahagsmál, sagnfræði og stjórnmál í EVE-heiminum. Auk þess kemur tónlistarmaðurinn Daði Freyr fram ásamt hljómsveit. Meðal gestafyrirlesara á þessari hátíð er stjörnufræðingurinn Mark McCaughrean frá Geimvísindastofnun Evrópu, ESA.