Rússnesk stjórnvöld tilkynntu í gær að Alþjóða rafíþróttasambandið (IESF) hefði ákveðið að heimila rússnesku rafíþróttafólki að taka þátt á mótum sambandsins. Auk þess fá keppendurnir að bera rússneskan fána og spila þjóðsöng Rússlands.
„Rússneska rafíþróttalandsliðið mun aftur geta tekið þátt á mótum undir sínu eigin nafni og flaggi,“ segir í tilkynningu frá rússneskum stjórnvöldum.
IESF heldur nú heimsmeistaramót í rafíþróttum í borginni Iaşi í Rúmeníu.
Að því er kemur fram í tilkynningu rússneskra stjórnvalda, hélt stjórn IESF atkvæðagreiðslu þar sem 32 fulltrúar greiddu atkvæði með þátttöku Rússa gegn 13 sem greiddu atkvæði á móti. 25 fulltrúar sátu hjá.
Hinn rúmensk-bandaríski Vlad Marinescu er bæði forseti IESF og forstjóri Alþjóða júdósambandsins (IJF).
Keppendur frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi fengu í ár að taka þátt í heimsmeistaramótinu í júdó í Doha í Katar undir hlutlausum fána. Fyrir vikið hættu Úkraínumenn við þátttöku á heimsmeistaramótinu.