Eldsnemma í morgun mættust rafíþróttaliðin Ninjas in Pyjamas og FaZe Clan í fyrsta leik dagsins á mótinu Counter-Strike Asia Championship.
Allt stefndi í sigur Ninjas in Pyjamas sem náðu átta lotu forskoti og voru einungis tveimur lotum frá því að sigra viðureignina þegar leikmenn FaZe fóru að hitta skotunum sínum. FaZe-menn náðu að jafna leikinn og því þurfti að fara í framlengingu.
Aftur og aftur náðu liðin að halda í við hvort annað þar til í fimmtu framlengingunni þegar FaZe-menn náðu loks að klára leikinn og lokatölur voru 28:25. Venjulega þarf einungis að vinna 13 lotur til þess að sigra viðureignina og er þetta því þriðji lengsti leikur í sögu leiksins Counter-Strike 2 og sá lengsti í keppni.