Í næstu viku hefst stórmót í höfuðborg Danmerkur, Kaupmannahöfn, er rafíþróttamótið BLAST Premier Fall Final hefst. Mótið byrjar þann 22. nóvember og er þetta fyrsta stórmót sem haldið er í Evrópu frá því að leikurinn Counter-Strike 2 kom út.
Leikið verður í íþróttahöllinni Royal Arena og keppast liðin um að vinna mótið og hreppa stærsta hluta verðlaunafésins, sem skiptist á milli liða í efstu sætunum. Verðlaunaféð fyrir allt mótið eru 425 þúsund dollarar, sem eru um það bil 60 milljónir íslenskra króna. Búið er að skipta þeim liðum sem keppa á mótinu niður í tvo riðla.
Í A-riðli mótsins mætast liðin FaZe, Cloud9, Natus Vincere og Ninjas in Pyjamas. Í B-riðli mótsins mætast liðin Vitality, Complexity, Astralis og Heroic. Fyrsti leikur mótsins er viðureign FaZe og Ninjas in Pyjamas, sem áttust við á dögunum í einum lengsta leik sögunnar.