Tíu sigrar í röð

FaZe bar sigur úr býtum gegn sænska rafíþróttaliðinu Ninjas in …
FaZe bar sigur úr býtum gegn sænska rafíþróttaliðinu Ninjas in Pyjamas í fyrsta leik stórmótsins BLAST Premier Fall Final í Counter-Strike. Skjáskot/FaZe

Stórmótið BLAST Premier Fall Final í Counter-Strike hófst í dag með leik FaZe og Ninjas in Pyjamas.  

FaZe vann sannfærandi 2:0 sigur á Ninjas in Pyjamas og er nú einum sigri frá því að komast í undanúrslit mótsins en Ninjas in Pyjamas fara nú í neðri flokkinn og þurfa að bretta upp ermar ef þeir ætla sér að komast lengra á mótinu. FaZe fékk fyrsta val þegar kosið var um keppniskort viðureignarinnar og tóku þeir út uppáhaldskort Ninjas in Pyjamas og því ljóst að hallaði verulega á sænska liðið sem hefur ekki náð flugi á árinu.

Í viðtali við HLTV sagði Karrigan, fyrirliði FaZe, að hann væri virkilega sáttur með leikinn í dag þar sem þeir hafi náð góðum úrslitum á korti sem þeir spila vanalega ekki en seinna kortið var einungis formsatriði fyrir liðið enda eru þeir virkilega góðir á kortinu Nuke. Með sigrinum í dag hefur liðinu tekist að vinna síðustu tíu viðureignir á stórmóti. Kanadíski leikmaðurinn Russel „Twistzz“ var atkvæðamestur í liði FaZe með 37 fellur í tveimur leikjum.

Á dagskrá í dag eru tveir leikir til viðbótar við þann sem stendur yfir núna en Cloud9 leikur nú við Natus Vincere.

Klukkan 15.00 mætast Vitality og Heroic og síðasti leikur dagsins fer af stað klukkan 18.00 þegar Complexity mætir Astralis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert