Tíunda umferð íslensku úrvalsdeildarinnar í Counter-Strike hefst í dag en deildin hefur verið í fríi frá því í byrjun mánaðar.
Í pásunni kepptu íslensku liðin í forkeppni BLAST mótaraðinnar, þar sem Dusty fór með sigur úr býtum og komst áfram. Leikir dagsins eru ekki af verri endanum en í fyrri viðureign dagsins mætast Young Prodigies (áður TEN5ION) og stórmeistarar Atlantic. Atlantic getur með sigrinum komist upp að hlið Young Prodigies í fjórða sæti deildarinnar en Young Prodigies getur minnkað muninn upp í Ármann, í þriðja sæti deildarinnar, með sigri í dag. Leikurinn hefst klukkan 19.30.
Klukkutíma síðar mætast ÍA og ÍBV en liðin eru bæði í neðri hluta deildarinnar, ÍA í áttunda sæti og ÍBV í 10. sæti, neðsta sæti deildarinnar. Eyjamenn leita enn að sínum fyrsta sigri í deildinni en leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir ÍA, sem geta komist upp í sjötta sæti með sigri í kvöld.