Búninga­skipti eftir dramatískt ein­vígi Veca og Þórs

Einar Ragnarsson og Tómas Jóhannsson lýstu leik Veca og Þórs …
Einar Ragnarsson og Tómas Jóhannsson lýstu leik Veca og Þórs í beinni útsendingu og sá fyrrnefndi fagnaði sigri sinna manna með hljóðlátum stæl, lét jakkann flakka og snaraði sér í gamla Veca-treyju. Ljósmynd/RÍSÍ

Sjöundu umferð Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike lauk með þremur leikjum á fimmtudagskvöld þar sem hæst bar nokkuð óvæntur 2:1-sigur Veca á Þór, sem heldur þó enn 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum, á eftir toppliði Dusty.

Tómas Jóhanns­son og Einar Ragnars­son lýstu leik Þórs og Veca í beinni útsendingu á fimmtudagskvöld og sáu ekki eftir því að sá leikur hafi orðið fyrir valinu.

Þetta var stórskemmtilegt einvígi. Það var dramatík alveg út í gegn,“ sagði Tómas þegar úrslitin lágu fyrir og gekkst síðan fúslega við því að hafa greinilega vanmetið Veca í upphafi tímabilsins.

Einar var að vonum hinn hressasti enda yfirlýstur Veca-maður og fagnaði sigri sinna manna með búningaskiptum. Hann mætti í upphafi jakkaklæddur, eins og svo oft þegar hans lið keppir, en nýtti tækifærið og lauk útsendingunni í gamalli Veca-treyju.

Viðureign Veca og Þórs lauk sem fyrr segir 2-1 en hinir tveir leikir gærkvöldsins fóru þannig að Saga lagði Ármann 2-0 og Rafík sigraði Venus, einnig 2-0. 

Einar og Tómas tóku leik Veca og Þórs mishátíðlega en …
Einar og Tómas tóku leik Veca og Þórs mishátíðlega en Einar fór hvergi leynt með að hjarta hans slær Veca-megin í lífinu og mætti jakkaklæddur í beinu lýsinguna. Ljósmynd//RÍSÍ

Kano og  ÍA og Dusty og Höttur tókust á fyrr í vikunni þegar leikar fóru þannig að Dusty vann 2-1 og ÍA tapaði 0-2 og situr sem fastast, stiglaust, í neðsta sæti Ljósleiðaradeildarinnar. 

Áttunda og næst síðasta umferð deildarinnar hefst þriðjudaginn 22. október þegar Kano og Höttur mætast annars vegar og Saga og Dusty hins vegar.

Staðan í Ljósleiðaradeildinni þegar tvær umferðir eru eftir.
Staðan í Ljósleiðaradeildinni þegar tvær umferðir eru eftir. Ljósmynd/RSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert