Topp­sætið í Fortni­te hangir á einu stigi

Höfuðandstæðingarnir Denas og Kristófer hafa tekið afgerandi forystu í Fortnite …
Höfuðandstæðingarnir Denas og Kristófer hafa tekið afgerandi forystu í Fortnite en aðeins eitt stig skilur þá að á toppnum.

Allt er í járnum á toppi ELKO-Deildarinnar í Fortnite eftir 7. umferð þegar aðeins eitt stig skilur á milli höfuðandstæðingana Denasar Kazu­lis og Kristófers Tristan í tveimur efstu sætunum.

Denas (denas 13) og Kristófer (iKristoo) juku enn á forskot sitt í deildinni á mánudagskvöld þegar Denas endurheimti efsta sætið þar sem hann situr nú með 317 stig á móti 316 stigum Kristófers.

Þessir tveir hafa skipst á að hirða toppsætið hvor af öðrum í síðustu umferðum og í 6. umferð náði Denas að saxa vel á forskot Kristófers sem var aðeins tveimur stigum ofar þegar leikar hófust í þessari viku.

Hvorugur þeirra náði þó sigri í fyrri leik umferðarinnar þar sem annar Kristófer, Krizzto sem er í 8. sæti deildarinnar, lék sér að því að stela sigrinum. Kristófer Tristan var síðan sjálfum sér samkvæmur og sigraði í seinni leiknum.

Denas hafnaði í 3. sæti í fyrri leiknum og náði þremur fellum og endaði í 2. sæti í seinni leiknum og náði að vinna sér inn fullt af stigum sem dugðu til þess að mjaka honum upp fyrir Kristófer. Emil Víkingur (Rich Emil) er talsvert langt að baki með 133 stig í þriðja sætinu og Lester Search (aim like Lester) er staðfastur í því fjórða með 111 stig.

Fáir virðast því geta ógnað Denasi og Kristófer þegar þrjár umferðir og sex leikir eru eftir af mótinu en á móti kemur að baráttan um 3. sætið er orðinn sjálfstæður spennuvaldur þar sem fjöldi stiga eru enn í pottinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert