Stelpurnar okkar klárar í slaginn á Nor­dic Champions­hip

Árveig Lilja fer fyrir íslenska kvennalandsliðinu sem In-Game Leader (IGL) …
Árveig Lilja fer fyrir íslenska kvennalandsliðinu sem In-Game Leader (IGL) á Nordic Championship um helgina.

„Ég held við séum mjög tilbúnar núna,“ segir Árveig Lilja Bjarnadóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í Counter Strike, um Nordic Championship 2004 þar sem landslið Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar keppa í Jönköping í Svíþjóð um helgina.

Landsliðið, sem auk Árveigar er skipað þeim Guðríði Hörpu Elmarsdóttur, Jasmin Joan Rosento, Sunnu Karítas Rúnarsdóttur og Rósu Björku Einarsdóttur, kom saman í Kaupmannahöfn í gær þaðan sem þær keyrðu, ásamt þjálfara sínum, Hafþóri Erni Péturssyni, til Jönköping þar sem þær eru nú klárar í slaginn.

Reynslunni ríkari

„Ég er búin að fara í gegnum þetta áður og við erum tvær í liðinu sem höfum hitt þessar stelpur áður. Á þessu sama móti á síðasta ári,“ segir Árveig en hún og Jasmin kepptu báðar með íslenska liðinu í fyrra. „En þetta er annars allt nýtt fyrir hinum þremur í liðinu.“

Norðurlandameistaramótið hefst í klukkan 14 í dag og þá mæta stelpurnar okkar liði Danmerkur í sínum fyrsta leik. Þær dönsku enduðu í 2. sæti í fyrra þegar íslenska liðið rak lestina í 5. sæti.

Árveig segir úrslitin 2023 ekki trufla stelpurnar sem telja sig mun betur í stakk búnar að þessu sinni. Þær telji þó danska og finnska liðið til hættulegustu andstæðinga sinna.

Íslenska kvennalandsliðið í Counter-Strike á Norðurlandamótinu í Gautaborg á síðasta …
Íslenska kvennalandsliðið í Counter-Strike á Norðurlandamótinu í Gautaborg á síðasta ári þangað sem Árveig og Jasmin sóttu dýrmæta reynslu sem þær ætla að nýta núna. Ljósmynd/Eva Margrét

„Í fyrra vorum við þrjár sem vorum glænýjar í leiknum, en núna erum við komnar með miklu meiri reynslu og búnar að æfa okkur miklu meira í ár þannig að ég held við séum mjög tilbúnar núna.“ 

Engar Svíagrýlur 

Aðspurð bætir hún við að þær séu að sjálfsögðu búnar að kynna sér andstæðingana vel og æfa stíft. „Já, já, já.Við erum, eins og maður segir,  búnar að vera að „fragga“ og „grinde-a“.

Árveig telur nokkuð ljóst að helst þurfi þær að hafa áhyggjur af liðum Danmerkur og Finnlands. „Þær voru mjög sterkar í fyrra,” segir hún en kannast hins vegar ekki við að Svíar séu Íslendingum einhver sérstök grýla eins og stundum gerist í boltanum.

Hægt er að fylgjast með leikjum íslenska kvennalandsliðsins á Nordic Championship í beinu streymi á ýmsum veitum Rafíþróttasambands Íslands sem finna má HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert