Samkvæmt svörum foreldra í nýrri könnun Gallup á tölvuleikjaspilun hjá fullorðnum og börnum spila 73% stúlkna og 99% drengja á grunnskólaaldri tölvuleiki.
Könnunin bendir til þess að drjúgur meirihluti íslenskra barna undir 18 ára spili einhvers konar tölvuleiki en 68,6% svöruðu spurningunni: „Spilar barnið þitt tölvuleiki?“ játandi en 31,4% sögðu börn sín ekki spila tölvuleiki.
Síminn er algengasta leikjatæki barnanna en 45,5% sögðu börn sín spila tölvuleiki í símanum. Leikjatölvur koma þar á eftir með 35,6% og 21,3% spila í spjaldtölvum en fæst spila börnin í borð- eða fartölvum, 16,6%.
Þegar svörin eru flokkuð eftir kynjum spila 46% drengja í símum og 51% stúlkna. 55% drengja nota leikjatölvur en aðeins 18% stúlkna.
Hlutföllin eru nokkuð jöfn í spjaldtölvum þar sem 21% drengja spila á móti 22% stúlkna. Þegar kemur að borð- eða fartölvum breikkar bilið milli drengja og stúlkna en 25% stráka nota slík tæki til spilunar en aðeins 9% stelpna.
Eins og við mátti búast er leikjaspilun lang minnst og vart mælanleg hjá börnum frá 0-2 ára þar sem 99% foreldra svöruðu spurningunni neitandi. Spilandi börnum fjölgar nokkuð í hópi 3-5 ára en þó segja 54% foreldra börn sín ekki spila tölvuleiki.
Staðan snýst síðan við þegar börnin eru 6-12 ára en þá eru foreldrar barna sem ekki spila tölvuleiki komnir niður í 8% en 66% barna byrjuð að spila í síma, 46% í leikjatölvum, 35% í spjaldtölvum og 19% í borð- eða spjaldtölvu.
Þegar krakkarnir eru 13-18 ára segja 11% foreldra börnin ekki spila tölvuleiki en símanotkunin stendur enn í 66%. Leikjatölvurnar fara upp í 53%, spjaldtölvurnar fara niður í 15% á meðan borð - og fartölvur hækka upp í 31%.
Skipting eftir búsetu er þannig að 31% foreldra í Reykjavík segja börn sín ekki spila tölvuleiki en 34% í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Talan lækkar síðan aðeins annars staðar á landinu og stendur í 30%.