Níunda og síðasta umferð Ljósleiðaradeildarinnar í Counter Strike hófst með leikjum Sögu og Hattar annars vegar og Rafík og Kano hins vegar.
Tómas Jóhannsson og Einar Ragnarsson lýstu leik Sögu og Hattar í beinni útsendingu en fyrir umferðina voru liðin í fjórða og fimmta sæti og því var talsvert í húfi hjá báðum.
Einar benti á að spennan í Ljósleiðaradeildinni gæti varla verið meiri en hún er við upphaf 9. umferðar, bæði í sambandi við umspilið og hvaða lið muni enda í efsta sæti að hefðbundnu tímabili loknu.
Sögu tókst, með nokkru harðfylgi, að vinna báða leikina 13:7 og landaði 2:0-sigri sem kom liðinu í 4. sæti með 12 stig en Höttur er, eins og leikar standa, í 6. sæti með átta stig. Hinn leikur gærkvöldsins fór síðan þannig að Rafík tapaði 1:2 fyrir Kano.
Lokaumferðin klárast síðan með þremur leikjum á fimmtudagskvöld þar sem Þór og Dusty, Veca og ÍA og Venus og Ármann mætast á spennuþrungnu herkkjavökukvöldi.
Þar verður viðureign toppliðanna Dusty og Þórs óumdeilt aðalleikurinn en úrslit hans munu í raun skera úr um hvernig og hvaða lið munu raðast í þrjú efstu sæti deildarinnar.
1 Dusty 14
2 Þór 14
3 Veca 12
4 Saga 12
5 Kano 8
6 Höttur 8
7 Ármann 8
8 Rafík 6
9 Venus 2
10 ÍA 0