Þórarinn Þórarinsson
Þegar farið er að síga á seinni hluta GR Verk Deildarinnar í Rocket League eru lið OGV og Þórs nánast stungin af í toppbaráttunni þar sem OGV leiðir með 14 stig á móti 12 stigum Þórsara.
Sjöunda umferð GR Verk Deildarinnar í Rocket League fór fram á miðvikudagskvöld þegar OGV sigraði Dusty 3:1, Rafík tapaði 0:3 fyrir 354 og Þór vann Quick 3:1.
Þegar þrjár umferðir eru eftir er OGV komið í nokkuð þægilega stöðu í efsta sætinu og Þórsarar þeir einu sem eru líklegir til þess að geta veitt liðinu raunverulega baráttu um toppsætið.
Bæði liðin mega því vart stíga feilspor það sem eftir er af mótinu og þurfa að sanka að sér stigum. Gangi það eftir stefnir í hreinan úrslitaleik milli þeirra í lokaumferðinni.
Næsta umferð fer fram eftir viku, 6. nóvember, þegar OGV og Rafík, Dusty og Quick og 354 og Þór mætast á vellinum.