Íslenska PUBG samfélagið heldur sitt fjórða mót í PlayerUnknown's Battlegrounds á sunnudaginn og hvetur rótgróna tölvuleikjaspilara til þess að taka þátt í að endurvekja stemninguna í kringum þennan fornfræga leik.
„Þetta eru yfir 64 manna mót sem hafa notið mikilla vinsælda og verið vel tekið af samfélaginu,“ segir Kári Viðar Jónsson, einn þeirra sem hefur leitt endurreisnarstarfið.
Aðspurður segir Kári virkustu keppendurna marga hverja koma úr röðum „gamalla“ tölvuleikjaspilara með rætur í Counter Strike og fyrstu árum PUBG sem var fyrst gefinn út 2017.
„Ég myndi giska á að meðalaldurinn á mótunum sé á bilinu 30-35 ára. Þetta er mikið til fjölskyldufólk í þessu og ég og einn annar í mínu liði erum til dæmis tveggja barna feður og sá þriðji á von á barni. “
Kári er í liðinu Team-Iceland eða Ice og hann segir að mótahaldið megi aðallega rekja til löngunar hans og liðsfélaga hans til þess að bera sig saman við aðra Íslendinga sem væru enn að spila PUBG.
„Við vorum að rekast á landa okkar í opnum leikjum og vildum endilega reyna að ná meira sambandi við þá. Síðan vildum við líka reyna að mynda smá samfélag, eða kannski frekar vekja PUBG samfélagið af dvala. Ég held að það sé aðallega sameiginleg ást okkar á þessum leik sem sameini okkur og svo er það alltaf keppnisskapið,“ segir Kári og hlær.
Hann segist hafa komist að raun um að mikið er um rótgróna tölvuleikjaspilara sem eru kannski að „dútla“ í nokkrum leikjum. „Og eru kannski að koma aðeins til baka í PUBG til að taka þátt í þessu móti og endurvakningu samfélagsins með okkur þannig að við erum einnig duglegir að hvetja spilara til að koma bara og spila með okkur.“
Leikurinn byggir á hinu sígilda „Battle Royale“ módeli þar sem fjöldi liða kemur saman og síðan er barist þar til aðeins eitt stendur uppi sem sigurvegari. Kári segir mótin þrjú sem eru að baki hafa verið mjög spennandi og úrslit hafi ekki ráðist fyrr en undir leikslok en hingað til hefur liðið Pungur unnið tvisvar og Ice, lið Kára, einu sinni.
„Ég myndi nú halda að pngr, eða Pungarnir, séu sleipastir í þessu,“ segir Kári. „Ég held líka að þeir hafi spilað hvað lengst saman og hver og einn þeirra er mjög hæfur í þessum leik. Það er að minnsta kosti alltaf krefjandi að mæta þeim.“
Kári bendir áhugasömum á að varnarþing Íslenska PUBG samfélagsins er á Facebook og þau koma saman og keppa discord/354.
Mótin eru haldin á þriggja vikna fresti á sunnudagskvöldum. Fyrsta mótið var haldið 1. september, síðan 22. september, þá 13. október og það fjórða verður á sunnudaginn, 3. nóvember. Skráningu lýkur hins vegar á morgun, laugardag.
Kári bendir jafnframt á að síðustu tvö mót hafi verið sýnd í beinu streymi á Twitch. „Með þremur lýsendum, tveimur talandi og einum á tökkunum. 354 og Next Level Gaming styrkja okkur en NLG sér um vinninga og aðstöðu fyrir lýsendur. Þau eru líka búin að sýna frá tveimur síðustu mótum á risaskjá hjá sér í Egilshöll og ætla að halda því áfram.