Þórarinn Þórarinsson
Leikurinn sem beðið hefur verið eftir, viðureign Þórs og Dusty, fór fram á fimmtudagskvöld og þegar 9. og síðasta umferð Ljósleiðaradeildarinnar er að baki liggur fyrir að Þór, Dusty og Veca eru í þremur efstu sætunum fyrir úrslitakeppnina sem hefst í næstu viku.
„Þetta er leikurinn sem við erum búnir að bíða eftir allt tímabilið,“ sagði Einar Ragnarsson við Tómas Jóhannsson fyrir leikinn sem þeir lýstu í beinni útsendingu. „Þetta er leikurinn sem við vissum einhvern veginn svona fyrir fram að væri sá sem myndi ráða úrslitum.“
Engu logið þar og vissulega mikið undir í þessum leik því úrslit hans réðu í raun hvaða lið myndu raðast í þrjú efstu sæti Ljósleiðaradeildarinnar.
Dusty tefldi fram örlítið breyttu og öflugu liði sem dugði þó ekki til því Þórsarar voru í banastuði og stóðu uppi sem sigurvegarar 2:0. Þór fer því upp í úrslitakeppnina á toppi deildarinnar. Dusty er síðan í öðru sæti og Veca í því þriðja.
Hinir tveir leikirnir í þessum lokahnykk fóru þannig að Veca sigraði ÍA 2:0 og Ármann lagði Venus 2:1 og því ljóst að Höttur, Rafík, Venus og ÍA hafa lokið keppni en Saga, Ármann og Kano elta efstu liðin þrjú í undanúrslitakeppnina sem hefst þriðjudaginn 5. nóvember.