„Skítaafbrigði“ Björns Þorfinns dugðu gegn Hannesi Hlífari

Hannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnsson tókust hart á í …
Hannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnsson tókust hart á í átta manna úrslitum Íslandsmótsins í netskák.

Guðmundur Kjartansson og Björn Þorfinnsson eru komnir áfram í undanúrslit eftir sigra á Aleksandr Domalchuck og Hannesi Hlífari Stefánssyni í einvígjum þeirra í átta manna úrslitum Íslandsmóts Símans í netskák á sunnudagskvöld.

Átta manna úrslit Íslandsmóts Símans í netskák hófust með tveimur einvígjum á sunnudagskvöld þar sem annars vegar áttust við Guðmundur Kjartansson og Aleksandr Domalchuck og hins vegar Hannes Hlífar Stefánsson og Björn Þorfinnsson.

Guðmundur átti ekki í teljandi vandræðum með Aleksandr og lagði hann sannfærandi með 6 sigrum á móti 2. Ingvar Þór Jó­hann­es­son og Björn Ívar Karls­son lýstu viðureignum gærkvöldsins í beinni útsendingu og viðurkenndu að þessi afgerandi niðurstaða hefði komið þeim nokkuð á óvart.

Staðan var öllu tvísýnni í seinna einvígi kvöldsins þegar þeir áttust við stórmeistarinn Hannes Hlífar og alþjóðlegi meistarinn Björn.

Fyrirfram sögðust lýsendurnir eiga von á skemmtilegu einvígi og leyfðu sér einnig að vona að það yrði spennandi og bentu á að andstæðingarnir hefðu mjög ólíkan stíl og nálgun á skákina. Björn væri „flugeldamaður“ sem nyti sín í sviptingum en Hannes væri með miklum mun tæknilegri stíl.

Guðmundur Kjartansson var sannfærandi í öruggum sigri á Aleksandr Domalchuck.
Guðmundur Kjartansson var sannfærandi í öruggum sigri á Aleksandr Domalchuck.

 Skákgyðjan reyndist síðan meira fyrir flugelda en stíl að þessu sinni og Björn stóð uppi sem sigurvegari 6:4 eftir ótrúlegar vendingar í síðustu tveimur skákunum þar sem Hannes missti frá sér nánast unnið tafl í lokaskákinni með slæmum afleik.

„Maður er bara orðlaus,“ sagði Björn Ívar um yfirsjón Hannesar sem varð til þess að ekkert varð af yfirvofandi bráðabana og Björn gat fagnað því að vera kominn áfram í undanúrslitin.

„Einhvern veginn náði ég að grísa á fyrstu skákina og þá fór ég nú að verða bjartsýnn,“ sagði Björn í stuttu spjalli við nafna sinn Ívar eftir að úrslitin lágu fyrir. 

Miklar sviptingar voru í einvígi Hannesar og Björns en sá …
Miklar sviptingar voru í einvígi Hannesar og Björns en sá síðarnefndi þykir einmitt kunna best við sig í slíkum aðstæðum.

 „Svo sagði Hannes bara nei,“ hélt Björn áfram um næstu þrjár skákirnar sem Hannes vann. „Hann algerlega pakkaði mér saman og ég tefli náttúrlega þessi skítaafbrigði mín og hann hafnaði þeim bar eiginlega. Þannig að ég var í smá brekku.“

Björn sagðist síðan aftur hafa verið heppinn í brekkunni miðri og í raun telji hann sig hafa verið heppinn í öllum skákunum. Honum hafi eiginlega alltaf fundist hann vera í hálfgerðum vandræðum og vonaði að Hannes „færi að leika eitthvað af sér.“

Að viðureigninni lokinni upplýsti Björn Þorfinnsson nafna sinn Björn Ívar …
Að viðureigninni lokinni upplýsti Björn Þorfinnsson nafna sinn Björn Ívar Karls­son um að honum hafi fundist heppnin vera með sér í öllum skákunum gegn Hannesi Hlífari.

Sem hann svo sannarlega gerði og í seinustu skákinni varð ótrúleg yfirsjón til þess að Björn náði sigri í nánast vonlausri stöðu. „Ég var farinn að rifja upp reglurnar í bráðabananum,“ sagði Björn um hugarástand sitt í taplegri skákinni.

„Þetta var kannski ekki sanngjarnt en þetta var sætt,“ sagði Björn um úrslitin og bætti við að Hannes hafi reynst honum óþægilegur ljár í þúfu og ef ekki væri fyrir Hannes væri hann þrefaldur Íslandsmeistari í hraðskák eða allaveganna tvöfaldur.

„Hann hefur eyðilagt marga drauma þannig að það er eiginlega bara pínu skemmtilegt að senda hann út í myrkrið núna, smá brotinn, hann á það skilið eftir þjáninguna sem hann er búinn að valda mér,” sagði Björn um leið og hann setti upp sitt kunnuglega glott.

Nætu tvö einvígin á  Íslandsmótinu í netskák fara fram eftir hálfan mánuð þegar átta manna úrslitin halda áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert