Ásmundur Einar Daðason, ráðherra mennta- barna - og íþróttamála, lék á als oddi þegar mætti á Ungmennamót Rafíþróttasambands Íslands fyrir 8-12 ára og verðlaunaði eldhressa sigurvegara í Fortnite.
„Það gefur manni bara orku að hitta svona marga krakka,“ sagði Ásmundur Einar þegar hann mætti í Next Level Gaming í Egilshöll á sunnudaginn og sló botninn í vel heppnað mótið sem stóð alla helgina og lauk með æsispennandi keppni í hinum vinsæla leik Fortnite.
Áður en Ásmundur Einar kallaði sigurvegarana í ein- og tvíliðaleik á verðlaunapall sagðist hann ætla að hlífa krökkunum við dæmigerðum ræðuhöldum stjórnmálamanna og keyrði síðan léttleikandi upp stemninguna í salnum og á keppendum mátti greinilega sjá að þeim leiddist ekkert að taka við verðlaunum úr hendi ráðherra.
Ásmundur Einar var í góðum gír, þrátt fyrir miklar annir í snarpri kosningabaráttunni, og lýsti mikilli ánægju með starf Rafíþróttasambandsins og þann öra vöxt sem verið hefur í uppbyggingu skipulagðs rafíþróttastarfs á undanförnum árum.
„Þetta er alveg geggjað og það hefur verið gaman að fylgjast með öllu þessu starfi, uppbyggingunni og fá að taka þátt í henni.“ Auk ungmennastarfsins nefndi Ásmundur meðal annars sérstaklega þau tækifæri sem eru að opnast íslensku rafíþróttafólki í alþjóðlegum deildum, þann mikla ávinning sem stór alþjóðleg mót hafa þegar skilað og að byrjað sé að horfa til Íslands sem ákveðinnar fyrirmydnar þegar skipulagt rafíþróttastarf er annars vegar.
„Það er svo mikil gróska í þessu og gaman að því hversu hratt þetta þróast og nú er horft til okkar erlendis þegar kemur að skipulagðri starfsemi.“
Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasambandsins, notaði tækifærið til að þakka ráðherranum fyrir þann áhuga og stuðning sem hann hefur sýnt starfi sambandsins í orði og á borði.
Hann segir Ásmund Einar hafa reynst rafíþróttum haukur í horni í ráðherratíð sinni og að Framsóknarfólk virðist almennt mjög áfram um eflingu skipulagðs rafíþróttastarfs á Íslandi.
Þar sem Ásmundur Einar ræddi rafíþróttir af töluverðri þekkingu var eiginlega óhjákvæmilegt að spyrja hvort hann spilaði tölvuleiki mikið sjálfur?
„Ég spilaði Championship Manager í gamla daga, ég er alveg af þeirri kynslóð,“ sagði hann um fótboltaleikinn fornfræga sem spilarar kynntust fyrst 1992.
Hann bætti því síðan við að hins vegar væri Teitur Erlingsson, aðstoðarmaður hans, liðtækur spilari og hann hafi því falið honum að halda sér vandlega upplýstum um allt það helsta í rafíþrótta heiminum.
Ásmundur Einar byrjaði á að kalla sigurvegarana í einliðaleik Fortnite á verðlaunapallinn en þar var FH-ingurinn Þorlákur Gottskálk Guðfinnsson í 1.sæti með 149 stig, Filip Kosta, úr Breiðabliki var í 2. sæti og annar FH-ingur, Brimir Leó Bjarnason í 3. sæti.
Þegar röðin kom að sigurvegurum í tvíliðaleik tóku félagarnir úr FH, Þorlákur Gottskálk og Brimir Leó, við 1. verðlaunum með 139 stig. Blikarnir Filip Kosta og Tómas Hrafn Gunnarsson voru í 2. sæti og Benedikt Nóel Benediktsson og Alexander Orri Eiríksson úr Fylki í 3. sætinu.
Þegar Ásmundur Einar var búinn að heiðra sigurvegarana afhenti hann öllum keppendum þátttökuverðlaun og endaði með því að spyrja salinn hverjir væru bestir? Skemmst er frá því að segja að um það náðist ekki þverpólitísk sátt og nöfn hinna ýmsu liði bergmáluðu um salinn í Egilshöll.